Sólarhrúður (Actinic keratosis)

Hvað er sólarhrúður?

Sólarhrúður kallast actinic keratosis á ensku en þetta eru ákveðnar sólarskemmdir í húðinni sem koma fyrir á húðsvæðum sem hafa verið mikið útsett fyrir sól. Í raun eru sólarhrúður snemmbúið forstig flöguþekjukrabbameina í húð og þess vegna er mikilvægt að meðhöndla þau. Öllu jöfnu tekur þróun sólarhrúðra yfir í flöguþekjukrabbamein langan tíma, en því fleiri breytingar sem fólk er með, því meiri er áhættan á því að flöguþekjukrabbamein birtist á einhverjum tímapunkti.


Af hverju myndast sólarhrúður? 

Útfjólubláir geislar sólarinnar valda skaða á erfðaefni (DNA) húðfrumna í hvert skipti sem við útsetjum húðina fyrir sólinni. Allir þessir skaðar safnast upp yfir tíma í húðfrumunum og ef þeir verða of miklir getur sólarhrúður byrjað að myndast í húðinni. Þessar breytingar birtast á stöðum þar sem húðin hefur verið útsett fyrir útfjólubláum geislum sólarinnar í áraraðir t.d. á andliti, bringu, öxlum, handarbökum og sköflungum. Sérstök hættusvæði eru eyru og varir.


Hverjir fá sórlarhrúður?

Fólk sem hefur verið mikið útsett fyrir sólinni, bæði í reglulegum sólböðum eða mikilli útivist, er í meiri hættu á að fá þessar breytingar. Einnig koma þær frekar hjá fólki sem er með ljósa húðgerð, ef húðin hefur sólbrunnið oft og hjá ónæmisbældum einstaklingum.


Hvernig lýtur sólarhrúður út?

Í upphafi líta þessar breytingar oftast út eins og litlir þurrkublettir eða vægir exemblettir, flatir, ljósrauðir og vægt hreistraðir. Stundum verða breytingarnar mun þykkari og hreistrið verður þá eins og hörð skorpa og stundum eru þær brúnleitar að lit. Yfirleitt fylgja engin einkenni sólarhrúðri en ef breytingarnar verða aumar, stækka eða verða að sári sem ekki grær, getur það verið merki um að sólarhrúðrið sé að breytast yfir í flöguþekjukrabbamein.


Hvernig er hægt að losna við sólarhrúður?

Meðferðir fela í sér að losna við skaðaðar húðfrumurnar svo nýjar ferskar frumur geti komið í staðinn. Þetta er m.a. hægt að gera með:

  • Frystingu
  • Brennslu
  • Skröpun
  • Frumueyðandi kremum t.d. Efudix eða Aldara


Er hægt að fyrirbyggja uppkomu sólarhrúðurs?

Mikilvægt er að vernda húðina fyrir enn frekari sólarskaða með því að forðast sólina þegar hægt er, nota sólarvarnir sem eru með sólarvarnarstuðul 50 (SPF50) og vera í fatnaði sem hlífir húðinni fyrir geislum sólar.