


Flösuexem
Hvað er flasa og flösuexem?
Flösuexem (seborrheic dermatitis) er mjög algengur krónískur húðsjúkdómur sem veldur kláða og óþægindum bæði í hársverði og andliti. Algengast er að flösuexem byrji á unglingsárum og sjúkdómurinn er algengari hjá karlmönnum.
Flasa er í raun dauðar húðfrumur sem loða saman í húðflögur en hún myndast þegar frumumyndun og frumudauði húðfrumna í hársverðinum eykst umfram það sem telst eðlilegt. Flasa getur þróast yfir í flösuexem en þá er húðin ekki bara þurr og flösukennd heldur einnig rauð, bólgin og klæjar. Flösuexem er ekki bundið við hársvörðinn heldur getur komið fram í andliti og stundum á líkama.
Af hverju stafar flösuexem?
Orsakir flösuexems eru ekki að fullu þekktar, en rannsóknir benda til þess að þetta sé flókið samspil margra þátta, m.a. húðsveppsins malassezia, hormóna, tauga og næringarástands. Auk þess liggur flösuexem gjarnan í ættum og erfist þar af leiðandi. Malassezia er húðsveppur sem er hluti af náttúrulegri flóru húðarinnar en hann getur fjölgað sér úr hófi og er aukinn vöxtur hans talin vera helsta orsök flösu. Sveppurinn nærist á húðfitunni og brýtur hana niður í fitusýrur og efni sem erta hársvörðinn. Líkaminn bregst síðan við þessari ertingu með bæði aukningu á flögnun dauðra húðfrumna og bólgu- og exemmyndun.
Margir þættir geta valdið versnun á flösuexemi, t.d. streita, kuldi og veðrabreytingar. Yfirleitt er fólk með minni eða engin einkenni að sumri til.
Fólk sem er í aukinni áhættu á flösuexemi er frekar með olíukennda húðgerð, hefur ættarsögu um flösuexem, er ónæmisbælt eða með taugasjúkdóma eins og Parkinsons sjúkdóm eða flogaveiki.
Hver eru einkenni flösuexems?
Flasa lýsir sér með þurrum hársverði og fólk tekur yfirleitt eftir flösu í hárinu og á fötunum sínum. Vanalega er þetta ástand án kláða og auðvelt er að halda því í skefjum með flösusjampói. Hins vegar þegar fólk byrjar að finna fyrir roða, bólgu og kláða er ástandið orðið að exemi.
Flösuexem leggst aðallega á húðsvæði þar sem fitukirtlar framleiða mikla olíu; hársvörður, kringum nef, augabrúnir, skeggsvæði, eyru, bringa og handarkrikar. Flösuexem í andliti lýsir sér með illa afmörkuðum hreistruðum roðablettum þar sem húðin virðist bæði vera olíukennd og þurr í senn. Flasan í flösuexemi er olíukennd og gulleit, ólíkt flösu sem myndast í atópísku exemi og psoriasis sem er meira hvítleit. Hvarmabólgur á augnsvæði eru einnig algengur fylgifiskur.
Hvernig er flösuexem meðhöndlað?
Val á meðferð flösuexems fer eftir staðsetningu, útbreiðslu og alvarleika exemsins. Mikilvægt er að hafa í huga að þetta er krónískur sjúkdómur sem þarfnast viðhaldsmeðferðar en með réttri meðferð er hægt að halda einkennum í skefjum.
Grunnmeðferð flösuexems er að nota flösusjampó reglulega. Þessi sjampó er hægt að nota árum saman eða taka tarnir þegar einkennin eru slæm. Til eru mörg mismunandi flösusjampó en oftast virka þau sjampó best sem innihalda sveppahemjandi efni sem halda malassezia sveppnum í lágmarki svo að hann valdi ekki bólgu og kláða. Dæmi um slík sjampó eru Fungoral og Dermatin en þau innihalda sveppahemjandi efnið ketakonazol eða sjampó sem innihalda selenium sulfide t.d. Davines purifying shampoo og Dercos sjampó frá Vichy. Lykilatriði við slíka meðferð er að láta flösusjampóið liggja í hársverðinum í 3-5 mínútur áður en það er skolað úr og að setja sjampófroðuna liggja á flösuexemi í andliti á sama tíma.
Önnur efni sem vert er að leita eftir við val á sjampóum til að fyrirbyggjandi eru ciclopirox (Pharmaceris Purin sjampó), zinc pyrithione (Head & Shoulders) og salicylic acid (Eucerin Dermo og Biolage sjampóin).
Við mikla flösumyndun í andliti getur verið gott að nota vörur sem innihalda húðlosandi efni t.d. salicylic sýru, lactic sýru eða urea. Flösuexem í andliti er hægt að meðhöndla með sveppahemjandi kremum t.d. Canesten krem en oft þarf krem sem er sambland af vægum sterum og sveppahemjandi efni, sérstaklega ef mikill roði og bólga er í exeminu. Dæmi um slíkt krem er Daktacort og er þá notað 1-2x á dag í 1-2 vikur í senn. Ef stöðugt notkun sterakrems er þörf til að halda flösuexeminu niðri eru bólgueyðandi krem oft notuð í staðinn t.d. Protopic eða Elidel en þau er hægt að nota í langan tíma og sem viðhaldsmeðferð.
Ef flösuexem er slæmt í hársverði ávísa læknar gjarnan sterkum steralausnum sem eru þá notaðar nokkrar vikur í senn. Einstaka sinnum þarf sterkari meðferðir við flösuexemi eins og sveppadrepandi töflumeðferðir, ljósameðferðir og Isotretinoin (Decutan).
Hvað er hægt að gera til að halda flösuexemi í lágmarki?
- Hreinsaðu andlitið 2x á dag, gjarnan með húðlosandi efnum eins og salicylic sýru ef þú þolir
- Byrjaðu fyrirbyggjandi meðferð með flösusjampói áður en einkenni exemsins koma fram t.d. þegar byrjar að kólna í veðri
- Notaðu steralausn í hársvörð ef exemið er farið að klæja mikið og roði og bólga eru sjáanleg
- Notaðu Daktacort krem 1x á dag í 1-2 vikur á exem í andliti ef mikill roði er til staðar
- Ef þú þarf að nota sterakrem daglega í langan tíma til að halda einkennum í burtu skaltu biðja um bólgueyðandi krem sem inniheldur ekki stera (Protopic eða Elidel)