

Flösuvörtur
Hvað eru flösuvörtur?
Flösuvörtur (seborrhoeic keratosis) eru meinlausar góðkynja húðbreytingar. Þær eru stundum nefndar ellivörtur sem er rangnefni því þær koma líka fyrir hjá yngra fólki. Það má segja að nánast allir fái flösuvörtur einhvern tíman á lífsleiðinni og yfir 90% fólks 60 ára og eldri hafa a.m.k. eina flösuvörtu. Oft byrja þær að birtast milli 30 og 40 ára aldurs en tíðni þeirra eykst með aldrinum.
Hvað veldur flösuvörtum?
Orsök er ekki að fullu ljós en þetta er samansafn af góðkynja húðfrumum. Nafnið er í raun rangnefni því breytingarnar eru ekki veiruorsakaðar og því ekki eiginlegar vörtur. Þær hafa heldur ekkert með flösu að gera nema að þær eru oft hrjúfar á yfirborðinu. Flösuvörtur eru algengari á húðsvæðum sem eru útsett fyrir sól en tengsl við útfjólubláa geisla sólarinnar eru ekki að fullu þekkt. Erfðir virðast hins vegar hafa töluvert að segja um uppkomu flösuvarta og oft eru þær staðsettar þar sem álag er á húðinni t.d. áreiti vegna skartgripa eða fatnaðar.
Hver eru einkenni flösuvarta?
Flösuvörtur geta komið fram hvar sem er á húðinni, nema á iljum og í lófum. Algengast er að þær komi fyrir á bol, en einnig gjarnan andlit, háls og undir brjóst. Útlit þeirra getur verið mjög mismunandi, allt frá því að vera húðlitaðar og nánast flatar yfir í mjög stórar upphækkaðar dökkar vörtukenndar breytingar. Sumar flösuvörtur eru jafnvel svartar eða gráar á litinn. Hins vegar eru þær alltaf vel afmarkaðar og oft eins og þær séu límdar á húðina. Flösuvörtur sem eru á stöðum þar sem mikið áreiti er á húðina geta orðið ertar og valdið miklum óþægindum. Þær verða þá oft á tíðum rauðar og bólgnar og valda kláða, einstaka sinnum blæðir úr þeim við þessi skilyrði. Yfirleitt ná flösuvörturnar fyrra útliti sínu þegar ef dregið er úr kláða og bólgu, t.d. með sterakremum.
Eru flösuvörtur hættulegar?
Flösuvörtur eru alltaf góðkynja breytingar og engin hætta er á að þær breytist í illkynja húðkrabbamein. Hins vegar geta þær verið líkar ákveðnum tegundum af húðkrabbameinum í útliti og því er mikilvægt að fá rétta greiningu áður en þær eru fjarlægðar.
Er hægt að koma í veg fyrir flösuvörtur?
Því miður er ekki til nein góð aðferð til að koma í veg fyrir að þær komi fram á húðinni.
Er hægt að fjarlægja flösuvörtur?
Þar sem flösuvörtur eru saklausar breytingar þarf í raun ekki að fjarlægja þær. Stundum valda þær óþægindum, nuddast í föt eða fólk klórar óvart í þær og þá getur verið ástæða til að fjarlægja þær. Sumir vilja auk þess losna við flösuvörturnar þegar útlit þeirra er farið að trufla.
Flösuvörtur er hægt að meðhöndla á ýmsan hátt en algengast er að frysta, skrapa eða brenna þær í burtu. Mikilvægt er þó að sá sem framkvæmir aðgerðina hafi læknisfræðilega þekkingu og reynslu og geti þar af leiðandi greint þær frá illkynja húðbreytingum.