Sveppasýkingar á fótum og tánöglum

Af hverju fær fólk sveppasýkingu?

Á húð okkar lifa milljónir baktería og sveppa í sátt og samlyndi við okkur. Yfirleitt valda þessar örverur engum skaða, en geta þó fjölgað sér úr hófi og þá farið að valda einkennum. Dæmi um þetta eru fótsveppir, sem eru með algengustu sýkingum sem koma fyrir hjá mannfólki. Ef álag er á húðinni og það myndast sár eða sprungur eiga sveppirnir greiðari leið með að valda sýkingu. Fólk er samt sem áður mismóttækilegt fyrir að sýkjast og þótt einn einstaklingur í fjölskyldu sé með fótsveppi er ekki víst að allir fjölskyldumeðlimir séu smitaðir, þótt áhættan sé vissulega meiri.


Sveppir þrífast best í hita og raka, enda eru sveppasýkingar á fótum algengar hjá íþróttafólki, þeim sem stunda mikið sund og fólki sem gengur í þéttum lokuðum skóm. Sveppasýkingar smitast annað hvort við beina snertingu sýkts svæðis eða við snertingu hlutar sem inniheldur húðfrumur með sveppum t.d. skór, sokkar, sturtubotnar, búningsherbergi og umhverfi sundlauga. 


Rannsóknir sýna að fótsveppir eru gríðarlega algengir og íslensk rannsókn sýndi að 42% karla og 35% kvenna eru sýkt. Naglsveppir eru algengari hjá eldra fólki og fólki sem hefur verið með langvarandi fótsveppi og skaðaðar neglur eru einnig móttækilegri fyrir að sýkjast. Fótsveppir koma oft aftur þó meðferð skili árangri og þess vegna er mikilvægt að hafa fyrirbyggjandi meðferðir í huga til að forðast endursmit.


Hver eru einkenni fótasveppa?

Yfirleitt byrja húðeinkenni fyrst og síðan kemur smit í táneglur og til að fyrirbyggja naglsveppi er mikilvægt að meðhöndla húðeinkennin sem fyrst. Oft er sýking bæði í nöglum og húð en algengara að um sé bara að ræða annan fótinn. Margir finna einkennandi táfýlu af sveppasýktum fótum.


Til eru þrjú megin einkenni fótsveppa:
  • Klæjandi, flagnandi, ,,soðnar” rauðar eða hvítar breytingar milli tánna og þá helst á milli fjórðu og fimmtu táar
  • Hreistur sem nær yfir alla ilina og jafnvel upp á ristina, gjarnan með sprungum á hælum og við tær
  • Blöðrumyndun og bólgin vessandi sár, yfirleitt á innri hluta iljar


Táneglur sem eru sýktar með svepp eru gjarnan þykkar og með litabreytingum. Oftast sést gul eða hvít litabreyting en stundum brún eða rauð. Stundum verða sveppasýktar neglur lausar og geta jafnvel dottið af. Algengast er að stóra tánöglin sýkist.


Hvaða meðferðir er hægt að nota við fótasvepp?

Ef meðferð er hafin snemma er oftast hægt að ráða við sveppasýkinguna með kremum sem fást án lyfseðils í apótekum. Þetta á þó ekki við um naglsveppi. Ef sýkingin hverfur ekki við hefðbundin sveppadrepandi krem eða kominn er naglsveppur þarf að fá aðstoð heimilislæknis eða húðlæknis.


Sveppadrepandi krem sem fást án lyfseðils eru Lamisil, Daktacort og Pevaryl. Mikilvægt er að bera kremið á alla ilina og milli tánna, því sveppirnir eru gjarnan til staðar þótt ummerki þeirra sjáist ekki. Vanalega nægir meðferð í 1-3 vikur en nota skal meðferðina þar til einkenni hverfa. 


Lamisil er algengasta kremið sem vinnur á fótsvepp. Kremið er notað 1x á dag og yfirleitt þarf einungis viku meðhöndlun (Lamisil Once er borið á einu sinni). Lamisil hefur sveppadrepandi verkun og hefur þann kost að áhrifin vara í nokkurn tíma eftir að notkun er hætt. Daktacort er gott að nota ef mikill kláði er til staðar, en kremið er samsett úr vægum bólgueyðandi stera og sveppaeyðandi efni. Algengt er að nota Daktacort 2x á dag í 1-2 vikur í senn. Einnig má byrja með Daktacort í viku og skipta svo yfir í viku meðhöndlun með Lamisil. Pevaryl er stundum notað á fótsveppi en þarfnast lengri meðferðar eða í 2-3 vikur.


Ef sýking er orðin útbreidd í húðinni eða komin naglsveppur þarf að nota töflumeðferð. Yfirleitt eru notaðar Terbinafin töflur en sú meðferð getur tekið 6 mánuði eða lengur. Við meðferð naglsveppa er mikilvægt að klippa reglulega sýktu neglurnar eins stutt og hægt er. Einnig er gott að þjala þær niður ef þær eru þykkar. Þetta flýtir fyrir að meðferðin skili árangri.


Almennt virka meðferðirnar vel en endursmit er algengt og því nauðsynlegt að huga að fyrirbyggjandi aðgerðum.


Hvað er hægt að gera til að fyrirbyggja endurteknar sveppasýkingar?

  • Haltu fótunum hreinum og þurrkaðu vel milli táa eftir sturtu- og baðferðir 
  • Þvoðu handklæði eftir hverja notkun á 60°C hita því að sveppi lifa af við lægri hita
  • Skiptu um sokka daglega og notaðu helst bómullarsokka sem má þvo á 60°C hita
  • Þrífðu reglulega sturtubotninn og baðkarið
  • Vertu í skóm sem lofta vel um fæturnar og forðastu að vera lengi í heitum lokuðum skóm
  • Skiptu um skó daglega þannig að þeir nái að þorna vel á milli notkunar og skiptu út gömlum íþróttaskóm eða skóm sem lykta illa
  • Notaðu baðtöfflur í búningsklefum og sturtum sundlauga og íþróttahúsa 
  • Notaðu púður sem dregur í sig raka á fæturnar eða sveppadrepandi púður (pevaryl púður). Þetta á sérstaklega við um fólk sem fær endurteknar sýkingar
  • Notaðu Lamisil krem 1x í viku í fyrirbyggjandi skyni ef fótsveppirnir eru mjög þrálátir og endurteknir