Bólur

Bólur (acne vulgaris) er mjög algengt húðvandamál sem hrjáir fólk á öllum aldri og um allan heim, en sérstaklega unglinga og ungmenni.


Hvers vegna myndast bólur?

Fitukirtlar húðarinnar hafa það hlutverk að framleiða olíu sem viðheldur meðal annars raka húðarinnar. Venjulega berst olían úr fitukirtlunum upp á yfirborð húðarinnar án hindrunar.  Hins vegar framleiðir fólk með bólur of mikið af olíu í húðinni en olían ásamt dauðum húðfrumum mynda tappa sem stífla fitukirtla húðarinnar. Þetta leiðir til þess að fílapenslar og lokaðir kirtlar myndast. Þegar bakteríur sem lifa á húðinni komast í snertingu við þessa tappa, geta þær fjölgað sér og valdið bólgu. Bólgan veldur svo aftur eymslum og myndun graftarnabba og ef bólgan nær nægilega djúpt í húðina getur hún myndað djúp kýli og skilið eftir sig litabreytingar eða varanlegt ör.


Hvers vegna fá sumir bólur en aðrir ekki?

Olíuframleiðsla húðarinnar eykst mjög mikið á kynþroskaskeiðinu vegna hormónabreytinga og en það eru svokölluð karlhormón (androgen hormón) sem auka olíumyndun húðarinnar. Þess vegna er þessi sjúkdómur algengastur hjá unglingum og ungmennum. Í flestum tilfellum eldast bólur af fólki á fullorðinsárum en ekki hjá öllum og fullorðinsbólur er vandamál sem allmargir glíma við, sérstaklega konur. Margar konur hafa tilhneigingu til að fá bólur á ákveðnum dögum í tíðarhringnum, sérstaklega á höku og kjálkasvæði.


Erfðir hafa áhrif á áhættu á að fá bólur og ef foreldrar glímdu við slæmar bólur, eru töluverðar líkur á að börn þeirra munu einnig fá bólur.


Rannsóknir hafa verið misvísandi varðandi áhrif mataræðis á bólumyndun. Sumar rannsóknir benda til þess að mikið magn kolvetna og feitmetis geti aukið bólumyndun. Hins vegar eru áhrifin einstaklingsbundin og ef fólk finnur tengsl við ákveðnar fæðutegundir skal það að sjálfsögðu reyna að forðast þær fæðutegundir. Auk þess getur mikið magn fæðubótarefna eins og próteindufts og kreatinins aukið bólumyndun.


Auk þess skiptir miklu máli að nota húðvörur sem henta olíukenndri húð, þar sem feit krem, olíur og sumar snyrti- og hárvörur geta verið bólumyndandi (sjá ráðleggingar hér að neðan). 


Hvernig tegundir af bólum eru til?

Fílapenslar

Fílapenslar skiptast í opna og lokaða fílapensla. Opnir fílapenslar eru svartir á yfirborðinu vegna þess húðolían oxast þegar hún kemst í snertingu við andrúmsloftið en stafar alls ekki af óhreinindum eins og margir halda. Lokaðir fílapenslar eru hvítir eða húðlitaðir og stundum kallaðir hvíthausar. Þá er erfitt að kreista þar sem útgangsopið er yfirleitt alveg lokað.

Graftarbólur

Bakterían Propionibacterium acnes er hluti af eðlilegri bakteríuflóru húðarinnar en þegar olíframleiðsla húðarinnar eykst skapast kjöraðstæður fyrir vöxt bakteríunnar í útgangsopi fitukirtlanna. Bakteríurnar brjóta húðolíuna niður í fríar fitusýrur sem erta húðina og framkalla svörun ónæmiskerfisins með tilheyrandi bólgu að lokum graftarbólumyndun.

Kýli

Alvarlegustu tilfelli bólusjúkdóms lýsa sér í myndun mikils fjölda af graftarbólum og djúpum kýlum. Oft verða þá mikil eymsli í húðinni og að lokum örmyndun sem ekki hverfur. Þetta ástand þarfnast yfirleitt langvarandi meðferðar á Decutan (Isotretinoin). 


Er hægt að meðhöndla bólur?

Það er hægt að meðhöndla bólur með ýmsum meðferðum en meðferðirnar geta verið mismunandi eftir húðtegund, aldri og kyni. Lyfseðilsskyldar meðferðir er hægt að fá hjá heimilislæknum, húðlæknum eða á Húðvaktinni. Meðal lyfseðilsskyldra meðferða eru ýmis konar bólukrem, bólgueyðandi sýklalyf, Decutan töflur og getnaðarvarnarpillan hjá konum. Það er mjög mikilvægt að hugsa vel um húðina ef húðin er olíukennd eða bólugjörn og nota réttar húðvörur, hvort sem þörf er á lyfseðilsskyldri meðferð eða ekki.


Hvað er hægt að gera til að halda bólum í lágmarki?

  • Þrífðu andlitið kvölds og morgna því sviti, húðfita, óhreinindi og farði auka líkurnar á stífluðum kirtlum. Notaðu gjarnan húðhreinsivörur með salicylicsýru (BHA sýra). Dæmi um slíka húðhreinsa er að finna í húðvöru línum sem eru sérstaklega hannaðar fyrir olíukennda og bólugjarna húð eins og SkinCeuticals, CeraVe, Pharmaceris og La Roche-Posay
  • Notaðu eingöngu rakakrem sem eru ætluð olíukenndri eða bólugjarnri húð (enska: oily skin, acne skin eða non-comedogenic). Ef húðin er mjög olíukennd skaltu nota serum eða gel t.d. SkinCeuticals Hydrating B5 eða Clinique Moisture Surge. Ef þörf er á meiri raka er t.d. hægt að nota rakakrem frá bólulínum CeraVe, Neostrata, La Roche-Posay eða Hydrofil án olíu frá Gamla Apótekinu
  • Notaðu krem sem innihalda retinól á kvöldin. Retinól eru A-vítamín sýrukrem sem minnka fituframleiðslu húðarinnar og draga saman fitukirtlana. Þau örva einnig kollagen framleiðslu og minnka þannig ör eftir bólur. Retinól krem fást án lyfseðils t.d. frá SkinCeuticals, Neostrata, The Ordinary og Pharmaceris. Ekki er æskilegt að nota þau samhliða lyfseðilsskyldum retinól kremum 
  • Notaðu olíulausa sólarvörn daglega eða dagkrem með sólarvörn
  • Forðastu að kreista og kroppa bólurnar og ekki skrúbba húðina harkalega því þetta eykur líkur á sýkingum og örum
  • Borðaðu hollan fjölbreyttan mat með mikið af grænmeti og ferskum ávöxtum, haltu sykri í lágmarki og forðastu fæðubótarefni eins og kreatinin
  • Hættu að reykja ef þú reykir því reykingar auka stíflur í húðinni


Ef bólurnar eru alvarlegar, komin eru ör í húðina eða þær svara ekki meðferðum með ólyfseðilsskyldum húðvörum, þarf að fá frekari aðstoð. 


Mikilvægt er að hafa í huga að fólk er mismunandi, og það sem virkar fyrir einn einstakling virkar ekki endilega fyrir annan.